Gunnar Karel Másson, núverandi listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga, mun hverfa til annarra starfa að loknum Myrkum músíkdögum 2020, eftir að hafa stýrt hátíðinni með glæsibrag frá árinu 2017.

Tónskáldafélag Íslands auglýsir því hér með eftir listrænum stjórnanda fyrir Myrka músíkdaga árið 2021.

Helstu verkefni listræns stjórnanda:

Yfirumsjón með samsetningu hátíðardagskrár
Yfirumsjón með kalli eftir umsóknum og úrvinnslu umsókna
Bókun tónleikastaða
Samskipti við listamenn og fjölmiðla
Viðvera á öllum viðburðum sem tengjast hátíðinni hverju sinni

Viðkomandi tekur við stöðunni strax að loknum Myrkum músíkdögum 2020, eða í febrúar n.k. Ráðið er til eins árs í senn með möguleika á framlengingu samnings.

Myrkir músíkdagar eru meðal helstu viðburða á sviði sígildrar- og samtímatónlistar á Íslandi og hefur starfað í fjörutíu ár. Hátíðin var í ár tilnefnd til verðlauna Europe for festivals, festivals for Europe sem veitt eru annað hvert ár hátíð sem þykir skara fram úr hvað varðar listræn gæði, auk þess að hafa mikil áhrif á menningarsamstarf í nærumhverfi sínu. Hátíðin er auk þess í hópi borgarhátíða Reykjavíkur 2020-2022.

Umsóknir og fyrirspurnir sendist á netfangið tonskaldafelag@tonskaldafelag.is

Umsóknarfrestur er til 30. nóvember 2019