Félagsstarfið

Tilgangur félagsins er m.a. að vera málsvari félagsmanna gagnvart almenningi og hinu opinbera. Einnig að vinna að vexti og viðgangi tónmenntar í landinu og útbreiðslu tónlistar innanlands sem utan. 

Tónskáldafélagið skipar fulltrúa í eftirfarandi nefndir og ráð á vegnum tónlistarlífsins:

 • Formaður félagsins á sæti í stjórn Bandalags íslenskra listamanna og varamenn hans eru aðrir stjórnarmeðlimir Tónskáldafélagsins. Sama gildir um Listráð Hörpu og Fulltrúaráð Listahátíðar.
 • Tónskáldafélagið tilnefnir í eftirfarandi nefndir: 
  • Úthlutunarnefnd starfslauna listamanna; listamannalaun tónskálda – tveir aðalmenn og tveir varamenn
  • Tónskáldasjóður RÚV og STEFs
  • Hljóðritasjóður STEFs
  • Ferðasjóður STEFs
  • Nótnasjóður STEFs
  • Matsnefnd STEFs
  • Stjórn Tónskáldasjóðs Sýnar
  • Bakland LHÍ
  • Leikmyndasafn
  • Útvarpsverkanefnd Grímunnar
 • Félagið skipar nefndir um afmörkuð félagsmál ef þurfa þykir. Í dag eru eftirfarandi nefndir og hlutverk hjá félaginu:
  • Nefnd um endurskoðun á samþykktum félagins
  • Inntökunefnd nýrra félaga
  • Félagskjörnir endurskoðendur (tveir hverju sinni)

Á ofantölum lista má sjá að félagið getur haft víðtæk áhrif innan tónlistarlífsins og þar með kjör og starfsumhverfi tónskálda. 

Samkvæmt samþykktum hafa lögmætir félagsfundir æðsta vald í öllum málefnum félagsins og þess vegna skiptir miklu máli að mæta á félagsfundi ef félagar vilja hafa áhrif á stefnu og áherslur félagsins. 

Hafi félagsmenn áhuga á því að taka þátt í einhverjum ofantalinna hlutverka, bendum við þeim á að hafa samband við stjórn félagsins með því að senda tölvupóst á tonskaldafelag@tonskaldafelag.is

Hátíðir

Tónskáldafélag Íslands rekur tónlistarhátíðina Myrka músíkdaga. Stjórn félagsins er jafnframt stjórn hátíðarinnar og ræður til starfa listrænan stjórnanda og framkvæmdastjóra. 

Tónskáldafélag Íslands skipuleggur tónlistarhátíðina Norræna músíkdaga á fimm ára fresti, til jafns við hin Norðurlöndin. Það er á ábyrgð gestgjafalandsins hverju sinni að reka og fjármagna hátíðina að fullu. Stjórn félagsins er jafnframt stjórn hátíðarinnar og ræður til starfa listrænan stjórnanda og framkvæmdastjóra. 

Alþjóðasamstarf

 

Tónskáldafélagið er aðili að Norræna tónskáldaráðinu, en það skipa formenn systurfélaga okkar á Norðurlöndum. Eitt helsta verkefni ráðsins er að halda utan um Norræna músíkdaga, tónlistarhátíð sem flakkar milli Norðurlandanna og er haldin til skiptis í hverju aðildarlandi fyrir sig. Vefsíða Norræna tónskáldaráðsins er hér. Þar má einnig finna mjög aðgengilegan gagnagrunn um Norræna músíkdaga aftur til ársins 1888.

Tónskáldafélagið er aðili að ISCM – International Society for Contemporary Music, sem heldur tónlistarhátíðina World New Music Days á ári hverju. Vefsíða samtakanna er hér.

Tónskáldafélagið er aðili að ECSA – European Composers’ and Songwriters’ Alliance. Vefsíða samtakanna er hér.