Ásmundur Jónsson, útgefandi, framleiðandi og tónleikahaldari, hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga.

Ásmundur Jónsson er löngu landskunnur af störfum sínum innan íslensks tónlistarlífs og er varla til sá flötur þess sem hann hefur ekki snert. Helst ber þó að nefna útgáfu á íslenskri tónlist á vegum útgáfufyrirtækisins Smekkleysu, en Smekkleysa hefur um langt árabil verið helsta útgáfufyrirtæki á sviði sígildrar- og samtímatónlistar á Íslandi auk þess sem fyrirtækið hefur sinnt útgáfu á íslenskum þjóðlögum og tónlistararfi. Áður vann Ásmundur að útgáfumálum hjá Japís, Gramminu og Fálkanum.

Ásmundur hefur fjölbreytta reynslu af tónleikahaldi og skipulagi listviðburða, og má þar nefna viðburði fyrir Listahátíð í Reykjavík, Reykjavík Menningarborg Evrópu 2000, Jazzvakningu auk hljómleikahalds með Múm, Sigur Rós og Björk, svo einhverjir séu nefndir. Hann hefur sinnt fjölmiðlamálum Bjarkar hér á landi, auk þess sem hann hefur unnið við tónlistarblaðamennsku og dagskrárgerð fyrir útvarp. Þá hefur hann verið virkur í félagsmálum tónlistargeirans og m.a. setið í stjórnum Félags hljómplötuframleiðenda, Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samtóns og Kraums auk þess að hafa gegnt formennsku í Listráði Hörpu.

Stjórn Tónskáldafélagsins fagnar ráðningu Ásmundar og býður hann velkominn til starfa.