Leiðbeiningar um útreikning á greiðslum til tónskálda

Tónverkamiðstöð, Tónskáldafélag Íslands og Félag tónskálda- og textahöfunda hafa gefið út leiðbeiningar um útreikning á greiðslum til tónskálda. Þessum viðmiðunarreglum er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir tónskáld, listræna stjórnendur, flytjendur, umsækjendur og aðra sem panta tónverk, við útreikninga á sanngjarnri þóknun. Allar tölur eru leiðbeinandi. Tímalengdir og flokkar sem gefnir eru upp eru aðeins dæmi, ekki reglur.

Öll dæmin eru hugsuð út frá mánaðarlaunum til að auðvelda hlutaðeigandi aðilum að bera vinnu tónskálda saman við vinnu annarra í samfélaginu. Við mat á hversu langan tíma tekur að semja tónverk, er miðað við staðla frá Sænska tónskáldafélaginu, Föreningen Svenska Tonsättare. Staðallinn var settur fram eftir rannsókn sem sænska félagið stóð fyrir og má lesa um hana hér: En minuts musik eller en timmes arbete.Á síðu sænska tónskáldafélagsins FST má lesa meira um leiðbeiningarnar og einnig finna samningsdrög sem tónskáld og þeir sem panta tónverk geta nýtt í samningagerð. Til viðmiðunar má einnig lesa leiðbeiningar um greiðslur til tónskálda frá norska tónskáldafélaginu Komponist Foreningen.