Hvað gerir Tónskáldafélagið?

 

Kjaramál & starfsumhverfi

Tónskáldafélagið stendur vörð um málefni tónskálda. Félagið er vikur þáttakandi í stjórnum STEFs, BÍL og Samtóns og kemur þar m.a. að umsögnum um lagafrumvörp og reglugerðir, skipun nefnda um ýmis sértæk verkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga og fleira er varðar tónlistarlífið í heild.

 

Fræðsla & miðlun

Meðlimir fá reglulega send fréttabréf með upplýsingum um styrki, listamannsdvalir (residensíur), tónsmíðakeppnir og önnur málefni tónskálda. Félagið heldur reglulega félagsfundi og málþing þar sem rætt er það sem hæst ber þá stundina í tónlistarlífinu.

 

Hátíðir

Myrkir músíkdagar eru haldnir árlega á vegum félagsins. Tónskáldafélagið stendur fyrir Norrænum músíkdögum á Íslandi á fimm ára fresti í samvinnu við Norræna tónskáldaráðið. Félagið sendir einnig árlega íslensk tónverk inn til hátíðar ISCM, World New Music Days.

 

Alþjóðlegt samstarf

Félagið er aðili að Norræna tónskáldaráðinu, Alþjóðlegu félagi samtímatónlistar (ISCM) og Evrópsku tónskálda og lagahöfunda samtökunum (ESCA), sem hafa komið til leiðar mikilvægum réttarbótum á sviði höfundarréttar í Evrópu, t.d. gagnvart streymisveitum.

 

Hafðu áhrif á tónlistarlífið

Söfnumst saman og stöndum vörð um réttindin okkar

Vertu með!

Kjaramál og starfsumhverfi

Tónskáldafélagið stendur vörð um málefni tónskálda hvað varðar m.a. höfundarrétt og styrki. Félagið er vikur þáttakandi í stjórnum STEFs, BÍL og Samtóns. 

STEF

Tónskáldafélagið á fulltrúa í stjórn STEFs og stendur á þeim vettvangi vörð um höfundarrétt og réttmætar höfundarréttargreiðslur. Í gegnum STEF kemur félagið m.a. að því að veita umsagnir um lagafrumvörp og reglugerðir er varða höfundarrétt og skipa í mikilvægar stjórnir, nefndir og ráð innan tónlistargeirans, s.s. stjórn Tónskáldasjóðs RÚV, Tónskáldasjóð Söðvar 2 og Bylgjunnar, Tónlistarsjóð, Útón o.fl. STEF hefur einnig tekið virkan þátt í grasrótarverkefnum á borð við skýrslu um áhrif Covid 19 á íslenskan tónlistariðnað sem birt var á vefslóðinni tonlistartolur.is og varð grunnur að aðgerðum ríkisstjórnarinnar um úrræði vegna tekjutaps listafólks vegna heimsfaraldursins.

IHM

Tónskáldafélagið hefur í gegnum STEF skipunarrétt í stjórn og fulltrúaráð IHM, en þau samtök sjá fyrst og fremst um rétthafagreiðslur vegna eintakagerðar til einkanota. 

BÍL

Bandalag íslenskra listamanna er bandalag fagfélaga listamanna í hinum ýmsu listgreinum og er tilgangur þess fyrst og fremst að styðja vöxt og viðgang íslenskra lista, bæði innanlands og utan, gæta hagsmuna íslenskra listamanna og efla með þeim samvinnu og samstöðu. 

BÍL skipar fulltrúa í ýmsar stjórnir og nefndir um sértæk málefni listar og menningar á vegum hins opinbera, nýlegt dæmi er nefnd um stofnun Þjóðaróperu, auk þess sem það veitir umsagnir um lagafrumvörp og reglugerðir á sviði lista og menningar. BÍL heldur árlega málþing um málefni listamanna, nýleg dæmi eru málþing um starfslaun og verkefnasjóði hins opinbera, um höfundarrétt og fleiri stór málefni er varða afkomu og starfsumhverfi listamanna. BÍLveitir nauðsynlegt aðhald listafólks gagnvart menningarstofnunum og opinberum aðilum. 

Samtónn

Samtónn vinnur að sameiginlegum hagsmunum og að styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Stjórn Samtóns skipa formenn aðildarfélaganna sem eru FÍH, SFH, FHF og STEFs, en formenn beggja aðildarfélaga STEFs, þ.e. TÍ og FTT eiga sæti í stjórninni. STEF og SFH skiptast á að sinna framkvæmdastjórn Samtóns. 

Samtónn rekur Íslensku tónlistarverðlaunin og Dag íslenskrar tónlistar.

Samtónn hefur barist fyrir ýmsum málefnum tónlistar og stóð t.d. að stofnun ÚTÓN og hefur unnið ötullega að stofnun og nýrra styrktarsjóða s.s. Hljóðritasjóðs og sjóðs um endurgreiðslur vegna upptökukostnaðar.

Samtónn veitir reglulega umsagnir um lagafrumvörp og reglugerðir er varða ýmis málefni tónlistarlífsins og skipar reglulega í nefndir á vegum hins opinbera, nýlegt dæmi er nefnd um nýja Tónlistarmiðstöð. Aðildarfélög Samtóns komu öll að gerð skýrslu um áhrif Covid 19 á íslenskan tónlistariðnað. 

Tónskáldafélagið hefur einnig beinan tilnefningarrétt í eftirtaldar nefndir:

Formaður félagsins á sæti í stjórn Bandalags íslenskra listamanna og varamenn hans eru aðrir stjórnarmeðlimir Tónskáldafélagsins. Sama gildir um Samtón, Listráð Hörpu og Fulltrúaráð Listahátíðar. Formaður á einnig sæti í stjórn STEFs og Norræna tónskáldaráðinu.

  • Tónskáldafélagið tilnefnir í eftirfarandi nefndir:

    • Úthlutunarnefnd starfslauna listamanna; listamannalaun tónskálda - tveir aðalmenn og tveir varamenn

    • Bakland LHÍ

    • Leikmyndasafn

    • Úthlutunarnefnd tónlistarsjóðs

  • Helstu nefndir sem félagið tilnefnir í gegnum aðild sína að STEFi:

    • Upptökusjóður STEFs

    • Ferðasjóður STEFs

    • Nótnasjóður STEFs

    • Tónskáldasjóður RÚV og STEFs

    • Tónskáldasjóður Sýnar

    • Höfundaréttarráð

    • Stjórn Fjölís

    • Stjórn Útón

    • Fulltrúaráð IHM

    Upplýsingar um allar nefndir á vegum STEFs og þá fulltrúa sem þar sitja má nálgast í ársskýrslu samtakanna hverju sinni. 

  • Félagið skipar nefndir um afmörkuð félagsmál ef þurfa þykir. Í dag eru eftirfarandi nefndir og hlutverk hjá félaginu:

    • Inntökunefnd nýrra félaga

    • Félagskjörnir endurskoðendur (tveir hverju sinni)

Á ofantölum lista má sjá að félagið getur haft víðtæk áhrif innan tónlistarlífsins og þar með kjör og starfsumhverfi tónskálda. 

Samkvæmt samþykktum hafa lögmætir félagsfundir æðsta vald í öllum málefnum félagsins og þess vegna skiptir miklu máli að mæta á félagsfundi ef félagar vilja hafa áhrif á stefnu og áherslur félagsins. 

Hafi félagsmenn áhuga á því að taka þátt í einhverjum ofantalinna hlutverka, bendum við þeim á að hafa samband við stjórn félagsins með því að senda tölvupóst á tonskaldafelag@tonskaldafelag.is

Fræðsla og miðlun

Miðlar

Meðlimir fá reglulega send fréttabréf með upplýsingum um styrki, listamannsdvalir (residensíur), tónsmíðakeppnir, málþing og önnur málefni tónskálda. Félagið heldur reglulega málþing og félagsfundi um málefni tónskálda. Félagið heldur einnig úti Facebook síðu og deilir þar reglulega fréttum sem höfða til tónskálda.

Málþing

Málþing hafa verið haldin í tengslum við Myrka músikdaga og Norræna músíkdaga og snúa þau þá frekar að listrænum og samfélagslegum málefnum. Félagið hefur einnig haldið málþing í samvinnu við STEF, Tónverkamiðstöð og ÚTÓN um málefni tónskálda.

Félagsfundir

Félagsfundir eru að jafnaði haldnir tvisvar á ári auk aðalfundar. Á félagsfundum eru rædd málefni sem er varða starfsumhverfi tónskálda. Niðurstaða félagsfunda leggur línurnar um þær áherslur sem félagið setur sér í baráttumálum. Það að mæta á félagsfundi, taka þátt í að móta stefnur, gefa út ályktanir og greiða atkvæði hefur því mikil áhrif á stefnu félagsins. 

Aðalfundur

Aðalfundur er æðsta ákvörðunarvald um stefnu félagsins. Þar er kosið til stjórnar, skýrsla líðandi starfsárs lögð fram og starfsáætlun komandi starfsárs kynnt. 


Hátíðir

Myrkir músíkdagar

Tónskáldafélag Íslands rekur tónlistarhátíðina Myrka músíkdaga. Stjórn félagsins er jafnframt stjórn hátíðarinnar og ræður til starfa listrænan stjórnanda og framkvæmdastjóra. 

 

Norrænir músíkdagar

Tónskáldafélag Íslands skipuleggur tónlistarhátíðina Norræna músíkdaga á fimm ára fresti, til jafns við hin Norðurlöndin. Það er á ábyrgð gestgjafalandsins hverju sinni að reka og fjármagna hátíðina að fullu. Stjórn félagsins er jafnframt stjórn hátíðarinnar og ræður til starfa listrænan stjórnanda og framkvæmdastjóra.

 Alþjóðasamstarf

council-logoNKR.jpg

 Tónskáldafélagið er aðili að Norræna tónskáldaráðinu, en það skipa formenn systurfélaga okkar á Norðurlöndum. Eitt helsta verkefni ráðsins er að halda utan um Norræna músíkdaga, tónlistarhátíð sem flakkar milli Norðurlandanna og er haldin til skiptis í hverju aðildarlandi fyrir sig. Vefsíða Norræna tónskáldaráðsins er hér. Þar má einnig finna mjög aðgengilegan gagnagrunn um Norræna músíkdaga aftur til ársins 1888.

 
csm_iscm_01_e1208e3236.png

Tónskáldafélagið er aðili að ISCM - International Society for Contemporary Music, sem heldur tónlistarhátíðina World New Music Days á ári hverju. Vefsíða samtakanna er hér.

 
ecsa.jpg

Tónskáldafélagið er aðili að ECSA - European Composers' and Songwriters' Alliance. Vefsíða samtakanna er hér.