Norrænir músíkdagar í London
Norrænir músíkdagar voru haldnir af Svíum í South Bank Centre í London í ár. Það var gert vegna þess að í allt sumar hefur verið Norðurlandamessa í South Bank Centre og ákváðu Svíar af því tilefni að stofna til samstarfs við skipuleggjendur messunnar um hýsingu hátíðarinnar í ár. Einu sinni áður hefur verið gerð tilraun með að halda Norræna músíkdaga utan Norðurlandanna, en Norðmenn héldu hátíðina í Berlín árið 2002.Flutt voru verk eftir fjögur íslensk tónskáld. Á opnunartónleikum Philharmonia Orchestra voru flutt verkin Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Fiðlukonsert eftir Daníel Bjarnason. Fyrir tónleika var tónskáldaspjall með þeim tveimur sem var einstaklega vel sótt. Þá voru flutt á hátíðinni verkin The Cancerous Cell eftir Bergrúnu Snæbjörnsdóttur og Suzuki Baleno eftir Báru Gísladóttur. Einnig voru Signý Leifsdóttir, framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar og Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður Tónskáldafélagsins viðstaddar hátíðina og sóttu bæði viðburði og fundi alla dagana. Þær Signý og Bára tóku auk þess þátt í pallborðsumræðum á einu af þremur málþingum sem haldin voru. Sérstaklega var áberandi hve vel allir viðburðir voru sóttir, svo greinilegt er að vel var að allri kynningu staðið.