Signý Leifsdóttir nýr framkvæmdastjóri Tónskáldafélagsins

Stjórn Tónskáldafélagsins hefur ráðið Signýju Leifsdóttur, menningarráðgjafa og fyrrum framkvæmdastjóra Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins. Signý er með B.Ed gráðu á sviði tónlistarkennslu frá Kennaraháskóla Íslands og MA gráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Signý er vel kunnug starfsemi félagsins vegna fyrri starfa og hefur mikla reynslu af alþjóðasamstarfi á sviði lista.

Starf framkvæmdastjóra felur í sér almenna stjórnsýslu og samskipti fyrir hönd félagsins, umsjón fjármála, og skipulagningu viðburða sem félagið stendur fyrir, hvort sem er eitt og sér eða í samstarfi við aðra. Ennfremur felur starfið í sér samstarf við listrænan stjórnanda og framkvæmdastjórn Myrkra Músíkdaga sem og Norrænna músíkdaga sem verða á Íslandi 2021 og umsýsla vegna þeirra eykst nú dag frá degi. Á móti kemur að formaður félagsins lætur af hendi starfsþætti sem nú verða felldir undir starfsvið framkvæmdastjórans. Þá skal tekið skýrt fram að þetta hefur ekki í för með sér neinn kostnaðarauka fyrir félagið, aðeins tilfærslu á kostnaði. Það er sannfæring stjórnarinnar að þetta nýja fyrirkomulag bæti skilvirkni hvað varðar umsýslu félagsins, samskipti, og daglegan rekstur og veita formanni og stjórn mun meira svigrúm til að sinna sjálfum félags- og hagsmunamálunum. Signý hefur störf þann 1. maí næstkomandi.

Stjórn Tónskáldafélags Íslands býður Signýju velkomna til starfa.

Signý Leifsdóttir

Signý Leifsdóttir

Previous
Previous

Norrænir músíkdagar á Íslandi 2021 auglýsa eftir umsóknum

Next
Next

Nýr listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga