LÖG TÓNSKÁLDAFÉLAGS ÍSLANDS

 

Samkvæmt samþykkt aðalfundar 1988 og breytingum sem gerðar voru á aðalfundi félagsins 1989, 1996, 2018 og 2022. 

 

1. gr. 

Félagið heitir Tónskáldafélag Íslands, skammstafað TÍ. 

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. 

2. gr. 

Tilgangur félagsins er: 

– Að safna í félagsskap tónskáldum og hljóðlistafólki og efla samvinnu þeirra. 

– Að gæta hagsmuna félagsmanna og vera málsvari þeirra. 

– Að efla skilning á eðli og mikilvægi faglegra og listrænna tónsmíða hérlendis. – Að sinna samstarfi við systursamtök og hátíðir erlendis. 

3. gr. 

Félagsmenn í Tónskáldafélagi Íslands geta þeir orðið sem hafa aflað sér kunnáttu og reynslu í tónsmíðum eða annarri hljóðlist. 

Umsækjendur skulu sýna fram á menntun á háskólastigi og/eða ótvíræða athafnasemi á sviði tón- eða hljóðsköpunar. 

Nefnd þriggja félagsmanna hefur það hlutverk að taka umsóknirnar til skoðunar og leggja mat á þær. Nefndin skal kynna þær fyrir aðalfundi og mæla með eða gegn samþykki þeirra. 

Fundurinn greiðir síðan leynileg atkvæði um inntöku allra umsækjenda og eru þær samþykktar sem hljóta að lágmarki sem nemur ¾ hluta atkvæða. 

Á aðalfundi félagsins geta meðlimir kjörið heiðursfélaga úr hópi félagsmanna eða utan þess. Til þess þarf tillagan að hljóta að lágmarki ¾ hluta atkvæða. 

4. gr. 

4.1 Formaður félagsins boðar til funda og skal boðið berast félagsmönnum með minnst einnar viku fyrirvara nema önnur ákvæði þessara laga eigi við. Í fundarboði skulu birt þau

mál sem verða á dagskrá fundarins. Sé málefnis ekki getið í fundarboði má fundarstjóri leita afbrigða með ¾ hluta atkvæða fundarmanna. Fundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og minnst tíu prósent félagsmanna mættir. 

4.2 Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málefnum félagsins innan þeirra takmarka sem lög þessi setja. Afl atkvæða ræður úrslitum nema annað sé ákveðið í lögum þessum. 

4.3 Aðalfund skal halda fyrir 1. júní ár hvert og boð á hann berast félagsmönnum minnst tveimur vikum fyrir settan fundardag. Fundarboð telst gilt berist það á heimilis- eða netfang félagsmanna. Aðra fundi má halda þegar stjórn félagsins telur þörf til. Krefjist minnst þriðjungur félagsmanna fundar ber að halda hann, enda fylgi kröfunni greinargerð fyrir ástæðum hennar. Kröfuna um fund skal senda formanni félagsins og ber honum þá að boða fundinn innan þriggja daga eftir að krafan berst. 

4.4 Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og/eða starfsmann til félagsins og er formaður ábyrgur fyrir verksviði hans. 

4.5 Formaður félagsins stýrir fundum þess eða skipar fundarstjóra í sinn stað. Fundarstjóri gengur úr skugga um að löglega hafi verið til fundarins boðað og tilnefnir fundarritara. Hver félagsmaður fer með eitt atkvæði á fundum félagsins. Félagsmanni sem ekki getur mætt til fundar er heimilt að veita öðrum meðlimi umboð til að fara með atkvæði sitt á fundinum. Þó skulu engum falin fleiri en eitt umboð hverju sinni. Atkvæðaleynd er heimil krefjist einhver fundarmanna hennar. Starfi framkvæmdastjóri hjá félaginu hefur hann málfrelsi og tillögurétt á öllum fundum þess. 

4.6 Fundargerðir skulu ritaðar og skráðar þar allar samþykktir fundarins. Þær skal síðan varðveita á prenti. Þær skulu aðgengilegar til aflestrar öllum félagsmönnum sem þess óska. 

5. gr. 

5.1 Tónskáldafélag Íslands er aðildarfélag að STEFi. 

5.2 Formaður Tónskáldafélags Íslands situr í stjórn STEFs og er annar stjórnarmaður TÍ varamaður hans þar. Stjórn TÍ skal sjá til þess að allar stjórnir, nefndir og ráð á vegum STEFs séu skipaðar meðlimum félagsins í samræmi við samþykktir STEFs. 

6. gr. 

Tónskáldafélag Íslands er aðili að Bandalagi íslenskra listamanna, BÍL. Formaður TÍ er fulltrúi félagsins í stjórn BÍL og annar stjórnarmaður varamaður hans eins og kveðið er á um í lögum BÍL. 

7. gr.

Stjórn Tónskáldafélags Íslands er skipuð á aðalfundi til eins árs í senn. Auk formanns skal kjósa tvo aðalmenn í stjórn og þrjá varamenn. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum og ákveður hver skuli gegna embætti varaformanns og ritara. Þá skal annar stjórnarmanna, auk formanns, fara með prókúru fyrir félagið. 

Formaður félagsins er sjálfkjörin í stjórn STEFs og þarf þess vegna að uppfylla kjörgengi samkvæmt samþykktum STEFs. 

Undirskrift formanns og annars stjórnarmanns eru nægilegar til að skuldbinda félagið gagnvart öðrum. Stjórn er heimilt að selja eða veðsetja eignir félagsins og undirrita skjöl þar að lútandi þá aðeins að fyrir liggi samþykki löglegs félagsfundar til þess. 

Formaður eða framkvæmdastjóri boðar stjórnarfundi. Skylt er að boða til fundar krefjist annar meðstjórnenda þess. Stjórnarfundur er aðeins lögmætur ef allir stjórnarmenn, eða í forföllum þeirra varamenn, sækja fundinn. 

Fundargerðir skulu ritaðar og skráðar þar allar samþykktir fundarins. Þær skal síðan varðveita á prenti. Þær skulu aðgengilegar til aflestrar öllum félagsmönnum sem þess óska. 

Á milli almennra félagsfunda og innan takmarka þeirra sem lög þessi setja, hefur stjórnin ákvörðunarvald um öll málefni félagsins og getur skuldbundið félagið með ályktunum sínum og samningum. 

8. gr. 

Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi. Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjöld eða samið um greiðslu þeirra fyrir aðalfund fellur atkvæðisréttur hans niður. Engu að síður hefur hann rétt til setu á aðalfundi og málfrelsi. Félagsaðild er gjaldfrjáls fyrir meðlimi 65 ára og eldri, hafi þeir greitt félagsgjöld í 10 ár hið minnsta. Greiði félagsmaður ekki félagsgjöld þrjú ár í röð og sinni ekki áminningum þar um jafngildir það úrsögn hans úr félaginu. 

9. gr. 

Nú vinnur meðlimur augljóslega gegn hagsmunum félagsins eða kemur á annan vítaverðan hátt fram við félaga sína. Skal þá heimilt að vísa honum úr félaginu með ¾ hluta atkvæða á löglegum félagsfundi. 

10. gr. 

10.1 Starfsár félagsins miðast við aðalfund og reikningsár er almanaksárið. 

10.2 Fyrir janúarlok hvert ár skal stjórn félagsins ganga frá bókhaldi félagsins fyrir liðið reikningsár. Bókhaldsgögn skulu kynnt tveimur félagskjörnum skoðunarmönnum sem kosnir eru á aðalfundi og skulu þeir yfirfara bókhald og skila athugasemdum minnst viku fyrir aðalfund. 

11. gr.

Á aðalfundi eru eftirfarandi mál tekin fyrir: 

1. Skýrsla stjórnar. 

2. Stjórn leggur ársreikning félagsins fyrir fundinn, svarar spurningum og að því loknu er gengið til atkvæða um hann. 

3. Kosning formanns, stjórnar og varastjórnar. 

4. Laun stjórnarmanna borin upp til samþykktar. 

5. Ákvörðun félagsgjalda. 

6. Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmanna reikninga. 

7. Kosning í nefndir og ráð sem félagið á fulltrúa í. 

8. Inntaka nýrra félaga. 

9. Önnur mál. 

12. gr. 

Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og skal gerð grein fyrir breytingatillögum í fundarboði. Til þess að lagabreytingar nái fram að ganga þurfa þær að hljóta stuðning ¾ fundarmanna. 

13. gr. 

Nú þykir ráðlegt eða nauðsynlegt að leysa upp félagið og fer þá um tillögur þar að lútandi sem um lagabreytingar. Fundur sá, sem samþykkir á lögmætan hátt að slíta félaginu, kveður og á um hvernig ráðstafa skuli eigum þess og um borgun skulda.