Tónskáldafélag Íslands

Fréttir

Nýr listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga

Ásmundur Jónsson, útgefandi, framleiðandi og tónleikahaldari, hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga.

Ásmundur Jónsson er löngu landskunnur af störfum sínum innan íslensks tónlistarlífs og er varla til sá flötur þess sem hann hefur ekki snert. Helst ber þó að nefna útgáfu á íslenskri tónlist á vegum útgáfufyrirtækisins Smekkleysu, en Smekkleysa hefur um langt árabil verið helsta útgáfufyrirtæki á sviði sígildrar- og samtímatónlistar á Íslandi auk þess sem fyrirtækið hefur sinnt útgáfu á íslenskum þjóðlögum og tónlistararfi. Áður vann Ásmundur að útgáfumálum hjá Japís, Gramminu og Fálkanum.

Ásmundur hefur fjölbreytta reynslu af tónleikahaldi og skipulagi listviðburða, og má þar nefna viðburði fyrir Listahátíð í Reykjavík, Reykjavík Menningarborg Evrópu 2000, Jazzvakningu auk hljómleikahalds með Múm, Sigur Rós og Björk, svo einhverjir séu nefndir. Hann hefur sinnt fjölmiðlamálum Bjarkar hér á landi, auk þess sem hann hefur unnið við tónlistarblaðamennsku og dagskrárgerð fyrir útvarp. Þá hefur hann verið virkur í félagsmálum tónlistargeirans og m.a. setið í stjórnum Félags hljómplötuframleiðenda, Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samtóns og Kraums auk þess að hafa gegnt formennsku í Listráði Hörpu.

Stjórn Tónskáldafélagsins fagnar ráðningu Ásmundar og býður hann velkominn til starfa.

Norrænir músíkdagar á Íslandi 2021

Norrænir músíkdagar verða næst haldnir á Íslandi haustið 2021.

Stjórn Tónskáldafélags Íslands hefur ráðið Tinnu Þorsteinsdóttur sem listrænan stjórnanda og Valdísi Þorkelsdóttur sem framkvæmdastjóra. Undirbúningur er kominn vel á veg og hátíðin mun fara fram 4.-6. nóvember 2021.

Auglýst eftir Listrænum stjórnanda fyrir Myrka músíkdaga 2021

Gunnar Karel Másson, núverandi listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga, mun hverfa til annarra starfa að loknum Myrkum músíkdögum 2020, eftir að hafa stýrt hátíðinni með glæsibrag frá árinu 2017.

Tónskáldafélag Íslands auglýsir því hér með eftir listrænum stjórnanda fyrir Myrka músíkdaga árið 2021.

Helstu verkefni listræns stjórnanda:

Yfirumsjón með samsetningu hátíðardagskrár
Yfirumsjón með kalli eftir umsóknum og úrvinnslu umsókna
Bókun tónleikastaða
Samskipti við listamenn og fjölmiðla
Viðvera á öllum viðburðum sem tengjast hátíðinni hverju sinni

Viðkomandi tekur við stöðunni strax að loknum Myrkum músíkdögum 2020, eða í febrúar n.k. Ráðið er til eins árs í senn með möguleika á framlengingu samnings.

Myrkir músíkdagar eru meðal helstu viðburða á sviði sígildrar- og samtímatónlistar á Íslandi og hefur starfað í fjörutíu ár. Hátíðin var í ár tilnefnd til verðlauna Europe for festivals, festivals for Europe sem veitt eru annað hvert ár hátíð sem þykir skara fram úr hvað varðar listræn gæði, auk þess að hafa mikil áhrif á menningarsamstarf í nærumhverfi sínu. Hátíðin er auk þess í hópi borgarhátíða Reykjavíkur 2020-2022.

Umsóknir og fyrirspurnir sendist á netfangið tonskaldafelag@tonskaldafelag.is

Umsóknarfrestur er til 30. nóvember 2019

Myrkir músíkdagar tilnefndir til EFFE verðlaunanna 2019-2020

Myrkir músíkdagar eru tilnefndir til EFFE verðlaunanna 2019-2020 ásamt m.a. BBC proms og fleiri þekktum hátíðum innan Evrópu. Verðlaunahátíðin verður haldin 26. september í Brüssel. Við erum að vonum mjög stolt af þessu.

Opið er fyrir almenna kosningu um val áhorfenda til 25. september n.k. Hægt er að greiða atkvæði hér.

Norrænir músíkdagar 2020 – Færeyjar

HUGMYNDAKALL: NORRÆNIR MÚSÍKDAGAR Í FÆREYJUM 2020 // CALL FOR IDEAS: NORDIC MUSIC DAYS IN THE FAROE ISLANDS 2020

Norrænir músíkdagar verða haldnir í Færeyjum árið 2020 og verður áhersla á bræðing allra listgreina, t.d. með innsetningum, gjörningum o.þ.h. Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir hátíðina og er umsóknarfrestur til 11. september n.k.

Kall 1: Hugmynd að verkum

Kall 2: Listamannadvöl

Kall 3: Hugmyndir utan sviðs

Smellið hér til að sækja um.

//

Nordic Music Days 2020 takes place in the Faroe Islands on 24-27 September and artists associated with the Nordic countries – the Faroe Islands, Greenland, Iceland, Åland, Sweden, Norway, Finland and Denmark – are invited to submit proposals for the festival’s program within three categories with associated criteria.

Call 1: Ideas for works

Call 2: Residency

Call 3: Ideas for offstage

Click here to submit works

Leiðbeiningar um útreikning á launum fyrir tónsmíðavinnu

Það er okkur mikið gleðiefni tilkynna að gefin hafa verið út launaviðmið fyrir tónsmíðavinnu.

Tónverkamiðstöð, Tónskáldafélag Íslands og Félag tónskálda- og textahöfunda hafa gefið út leiðbeiningar um útreikning á greiðslum til tónskálda. Þessum viðmiðunarreglum er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir tónskáld, listræna stjórnendur, flytjendur, umsækjendur og aðra sem panta tónverk, við útreikninga á sanngjarnri þóknun. Allar tölur eru leiðbeinandi. Tímalengdir og flokkar sem gefnir eru upp eru aðeins dæmi, ekki reglur.

Hægt er að kynna sér viðmiðin og hlaða niður hér á síðunni með því að fara í dálkinn Um Tónskáldafélagið – Launaviðmið fyrir tónsmíðavinnu.

Heiðursfélagar í Tónskáldafélagi Íslands

Á aðalfundi Tónskáldafélags Íslands þann 14. apríl 2018 var ákveðið að útnefna Atla Heimi Sveinsson og Jón Nordal sem heiðursfélaga. Báðir hafa þeir, fyrir utan að vera mikilsvirt tónskáld, unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins og tónlistarlífs í landinu. Þeir sinntu m.a. báðir trúnaðarstörfum fyrir félagið allt fram til ársins 2017 eftir áratugastarf. Af þessu tilefni efndi félagið til móttöku í Norræna húsinu. Sigrún Hjálmtýsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir fluttu valin verk þeirra og mikill hlýhugur og þakklæti svifu yfir vötnum.

Málþing um nótnaútgáfu og umboðsmenn

Tónskáldafélagið, Tónverkamiðstöð og STEF stóðu fyrir málþingi um nótnaútgáfu og umboðsmenn þann 5. október síðastliðinn. Frummælendur voru Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, og Susanne Eastburn hjá Sound and Music í London. Anna deildi reynslu sinni, bæði af því að vera með verk sín hjá Tónverkamiðstöð og því að standa í samningsgerð við útgáfufyrirtæki en Susanne deildi reynslu hinumegin borðsins. Í pallborði sátu síðan auk Önnu og Susanne Atli Ingólfsson, tónskáld, Áskell Másson, tónskáld og Signý Leifsdóttir, framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar. Streymi af málþinginu er aðgengilegt gegnum viðburðinn á facebook, en hann má finna með því að slá inn í leit „Útgáfa nótna og umboðsmenn tónskálda“.

Laufásvegi 40, 101 Reykjavík

info@tonskaldafelag.is